4.6.2008 | 07:38
Hvalfjarðargöng og bilaður bíll
Ég var á leið í Borgarnes í gærkveldi sem er aldeilis ekkert nýtt. Ógangur var í bílnum mínum ekki alveg að gera sig kúplingin eða gírkassinn eða eitthvað sem ekki sést úr bílstjórasætinu.
Ég átti nokkra metra eftir upp úr rörinu þegar ekkert gerðist meir, kúplaði að og af - til og frá. Stoppaði bílinn, blikkljósin á og reyndi allt sem ég kunni, fór með bænirnar, fiktaði í öllu sem fiktandi var í.
Humhumhum, setti "Hjálmana " á og hringdi í Gösla minn, hann brást við hinn ljúfasti en hváði þegar ég sagðist vera í villu vandræðum í göngunum: Göngunum af öllum stöðum!!!!!! Ég kem, og svo skellti hann á fallegu konuna sína sem sat og beið hans í grænum bíl.
Ég hélt nú að engu máli skipti hvar ég væri stödd í biluðum bíl. Urr.
Meðan ég beið rifjaðist upp fyrir mér atvik sem átti sér stað fyrir margt löngu í Borgarnesi:
Kunningi okkar einn vænn átti það til að sitja að sumbli hér og þar um þorpið og keyra svo heim þegar hann var orðinn of fullur til að syngja. Svona gekk þetta um nokkura ára skeið. Nema svo kom að því að lögreglan tók hann fyrir ölvun við akstur, þótti engum mikið en hann hafði á orði seinna Þeir hirtu mig á Þorláksmessu. Það þótti honum svívirða.
Jæja víkjum aftur að Hvalfjarðargangnabiðinni miklu (25 mín), eftir því sem mínúturnar snigluðust áfram leið mér ver því ég var fyrir öðrum ökutækjum - eftirlitsbifreið með mann innanborðs kom fljótlega, maðurinn snaraði sér út úr bílnum, spurði hvað væri að og bauðst til að draga mig upp úr göngunum, þar sem ég gæti beðið á öruggara svæði eftir honum Gösla mínum. Þessa hjálpsemi kunni ég vel að meta og sagði brosandi " Já takk"
Eftirlitsmaðurinn lagðist á fjórar fætur fyrir framan bílinn minn, leitaði og fann ekkert til að binda dráttartaugina í. Fátt var til ráða nema bíða eftir manninum úr Borgarnesi sem kom eftir akstur á löglegum hraða að heiman.
Út úr bílnum skaust Göslarinn beint á hnén fyrir framan græna bílinn með dráttartaug í annari hendi ( í útskotinu úr bílnum hafði hann fest hana í dráttarkrókinn á sínum bíl) skreið um stund hristi sitt fagra höfuð batt dráttartaugina í ............ við hægra framhjólið -hvarf upp í bílinn og af stað lögðum við.
Stöldruðum við um stund á planinu við göngin spjölluðum um bilunina undir húddinu, þá bilaði rafmagns uppogniðurhalarinn, og rúðuþurrkurnar fóru á full ferð. Ja hérna sagði Göslarinn Það virkar þó eitthvað og svo hvarf hann á nýjanleik upp í bílinn sinn og heim komumst við heil á húfi.
Það er gott að vera til, njótum þess.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.