Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Fylgd.

Komdu, litli ljúfur,
labbi, pabba stúfur,
látum draumsins dúfur
dvelja inni um sinn.
-- heiður er himinninn.
Blærinn faðmar bæinn,
býður út í daginn.
Komdu, kalli minn.

Göngum upp með ánni
inn hjá mosaflánni,
fram með gljúfragjánni
gegnum móans lyng,
-- heyrirðu hvað ég syng --
líkt og lambamóðir
leiti á fornar slóðir
innst í hlíðarhring.

Héðan sérðu hafið
hvítum ljóma vafið,
það á geymt og grafið
gull og perluskel,
ef þú veiðir vel.
En frammi á fjöllum háum
fjarri sævi bláum
sefur gamalt sel.

Glitrar grund og vangur,
glóir sund og drangur.
Litli ferðalangur
láttu vakna nú
þína tryggð og trú.
-- Lind í lautu streymir,
lyng á heiði dreymir,
-- þetta land átt þú.

Hér bjó afi og amma
eins og pabbi og mamma.
Eina ævi og skamma
eignast hver um sig.
-- stundum þröngan stig.
En þú átt að muna
alla tilveruna,
að þetta land á þig.

Ef að illar vættir
inn um myrkragættir
bjóða svikasættir
svo sem löngum ber
við í heimi hér,
þá er ei þörf að velja:
þú mátt aldrei selja
það úr hendi þér.

Göngum langar leiðir,
landið faðminn breiðir.
Allar götur greiðir
gamla landið mitt,
sýnir hjarta sitt.
Mundu, mömmu ljúfur,
mundu, pabba stúfur,
að þetta er landið þitt.

Guðmundur Böðvarsson

Til Guðs frá Jóhannesi.

                                                        Til Guðs frá Jóhannesi.


Komdu blessaður drottinn minn sæll og blessaður

og þakka þér fyrir gamalt og gott

nú er orðið langt síðan við höfum sézt

við höfum einhvern veginn farizt á mis


Ég hef stundum verið að segja við sjálfan mig

guð minn guð minn hví hefur þú yfirgefið mig

það er skömm að því að hittast ekki oftar

eins og við vorum nú samrýmdir í gamla daga


Þú varst alltaf svo skemmtilegur á jólunum

mikið varstu nú almáttugur og algóður

og mikið hefurðu nú gengizt fyrir síðan

ég held þú sért orðinn ennþá karlalegri en ég



Er ekki voða erfitt að vera guð á svona tímum

hvað líður vísitölunni í himnaríki núna

tollir nokkur sála hjá þér þarna í sveitinni

fara ekki allir til fjandans í höfuðstaðinn


Skaparðu nokkuð merkilegt nú orðið

hefurðu nokkurn stundlegan frið fyrir mönnunum

eru þeir ekki alltaf að hóta þér verkfalli

eru þeir ekki alltaf að biðja þig um stríð


Nú erum við íslendingar hættir við byltinguna

við græddum svo mikið á síðasta stríði

heldurðu að þú gefir okkur nú ekki eitt enn

eða kannski þú sendir okkur nýjan frelsara



Skelfing leiðist mér hvað þú ert á hraðri ferð

því gaman hefði verið að spjalla lengur við þig

jæja drottinn minn vertu ævinlega margblessaður

og feginn vildi ég eiga þig að


Jóhannes úr Kötlum

Ef ég vissi ekki betur .................

............. héldi ég að ég væri dauð.

 

Svo léleg er ég við andans iðkan hér á blogginu - hum eftilvill breytist staðan innan tíðar.

 

Njótum dagsins, lífsins og hvers annars.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband